Innlent

Danskur þingmaður: Norðurlönd verða að hjálpa Íslandi

„Norðurlönd verða að hjálpa Íslendingum," segir Line Barfod, þingmaður danska Einingarflokksins og fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þetta kemur fram á vefsíðunni norden.org.

„Norðurlöndin eiga að láta til sín taka og sýna íslensku þjóðinni samstöðu. Við ættum að bjóða þeim lán á ásættanlegum kjörum og almennt aðstoða íslenska þjóð við að byggja upp íslenskt efnahagslíf", skrifar Line Barfod á vefsíðu Einingarflokksins, Enhedslisten.dk

Line Barfod segir óréttlátt að dæma íslensku þjóðina til fátæktar, rústa heilbrigðis- og menntakerfi landsins, einvörðungu til að tryggja hraðar greiðslur til hollenskra og breskra spákaupmanna.

Hún vill að Norðurlöndin gangi til samninga við Íslendinga.



„Ríkisstjórnir norrænu ríkjanna hafa hingað til krafist þess að Íslendingar ljúki samningum við Breta og Hollendinga áður en komi til lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndum. En skilyrðin sem Bretland og Holland setja eru svo ósanngjörn að Norðurlöndin ættu að víkja frá þeim og í stað þess gera milliliðalaust sanngjarnan samning við Íslendinga", segir danski stjórnmálamaðurinn.

Line Barfod ætlar að taka málið upp við danska fjármálaráðherrann og biðja hann um að hefja máls á þessu við norræn starfssystkin sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×