Enski boltinn

Báðir varnarmiðjumenn Chelsea meiddir - Ancelotti í vandræðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Obi Mikel.
John Obi Mikel. Mynd/Getty Images
Það er skortur á varnartengiliðum hjá Chelsea eftir að John Obi Mikel bættist við hlið Michael Essien á meiðslalistann. Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, hefur því engan náttúrulegan varnartengilið í leiknum á móti Stoke um næstu helgi og þarf að setja óvanan menn í þessa mikilvægu stöðu.

John Obi Mikel meiddist á hné eftir aðeins 33 mínútur á móti Tottenham á White Hart Lane um síðustu helgi og Michael Essien hefur ekki spilað síðan hann meiddist í Meistaradeildarleik í desember. Það er þó ekki þau meiðsli sem halda Essien frá heldur hnémeiðslin sem hann varð fyrir með Gana í Afríkukeppninni.

Það eru margir á því að Chelsea sakni mikið Michael Essien og hvernig verður þetta þá þegar enginn vanur varnartengiliður er lengur inn á vellinum hjá liðinu.

Ancelotti þarf væntanlega að nota annaðhvort Michael Ballack eða Deco sem afturliggjandi varnarmann í leiknum á móti Stoke um næstu helgi.

Þetta eru ekki einu vandamálin því meiðsli Ricardo Carvalho og leikbann John Terry þýða að hann þarf líka að finna nýjan miðvörð en mestar líkur eru á því að Branislav Ivanovic spili þar við hliðina á Alex.

Didier Drogba er einnig tæpur í náranum og það er ljóst að Chelsea-liðið tapaði ekki aðeins dýrmætum stigum á móti Tottenham heldur missti þar einnig mikilvæga leikmenn í meiðsli og leikbann. Þessi leikur gæti því reynst afar dýrkeyptur í baráttunni um enska meistaratitilinn við Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×