Enski boltinn

Aguero væri sáttur við að flytja til London og spila með Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero.
Sergio Aguero. Mynd/AFP

Argentínski framherjinn Sergio Aguero hjá Atletico Madrid hefur í fyrsta sinn lýst yfir áhuga sínum á því að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea er líklegasta félagið til að næla í tengdason landsliðsþjálfarans Diego Maradona en það er vitað að Roman Abramovich er tilbúinn að leyfa Carlo Ancelotti að kaupa nýja leikmenn til liðsins í sumar.

„Chelsea er frábært félag og þeir hafa verið eitt öflugasta liðið í Evrópu á síðustu árum," sagði Sergio Aguero í viðtali við Daily Express.

„Ég horfi sérstaklega á leikmenn eins og Didier Drogba og Frank Lampard. Þeir hafa verið og eru enn bestu leikmenn í sinni stöðu í heiminum," sagði Aguero og bætti við: „Ég myndi læra mjög mikið af því að spila með slíkum leikmönnum, það er enginn vafi á því," sagði Aguero.

„London væri skemmtileg borg til að búa í og ég veit að ég og konan mín myndum vera mjög ánægð þar," sagði Aguero en vitað er líka af áhuga á honum frá Inter Milan.

„Inter er flott félag en það er ekki nokkur vafi á því að enska úrvalsdeildin hefur verið sú besta í heimi undanfarin fimm ár," sagði Aguero.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×