Enski boltinn

Það verður skipt 65 sinnum um gras á Wembley næstu þrettán árin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Getty Images
Enska knattspyrnusambandið er búið að gefa það út að það verði skipt mun oftar um gras á Wembley-leikvanginum í framtíðinni til þess að reyna forðast það ástand sem hefur verið á vellinum í undanförnum leikjum.

Sambandið reiknar með því að skipt verði um grasið fimm sinnum á ári næstu þrettán árin sem þýðir að nýtt gras verði lagt á völlinn í 65 skipti til ársins 2023.

Enska sambandið þarf að fjármagna byggingu leikvangsins með því að halda þar stóra viðburði sem tengjast ekkert fótbolta en sambandið skuldar um 757 milljónir punda vegna byggingu nýja Wembley.

Tónleikahaldið fer mjög illa með grasið sem hefur verið að sýna sig að undaförnu en leikmenn og stjórar kvörtuðu mjög mikið eftir undanúrslitaleikina í ensku bikarkeppninni á dögunum.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gekk svo langt að kenna vellinum um það að Michael Owen meiddist í úrslitaleik deildarbikarsins og getur ekki verið meira með á tímabilinu.

Það var búið að leggja nýtt gras ellefu sinnum frá því leikvangurinn var tekinn í notkun árið 2007 en það var bara ekki nóg.

Framundan er viðburðarríkur mánuður á Wembley, þar sem fara fram bikarúrslitaleikir, úrslitaleikir um sæti í deildum og vináttulandsleikur hjá enska landsliðinu á móti Mexíkó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×