Innlent

Brynjar Níelsson formaður Lögmannafélags Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Brynjar Níelsson er ný formaður Lögmannafélags Íslands. Mynd/ GVA.
Brynjar Níelsson er ný formaður Lögmannafélags Íslands. Mynd/ GVA.
Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður var kjörinn formaður Lögmannafélags Íslands á aðalfundi félagsins í dag. Hafði hann þar með betur en Heimir Örn Herbertsson mótframbjóðandi hans.

Brynjar segir ástæðuna fyrir framboði til formanns vera þá að hann hafi fengið fjölmargar áskoranir um framboð. „Ætli menn hafi ekki talið á erfiðum tímum að ég gæti gert eitthvað,“ segir hann, aðspurður um það hvers vegna hann telji að hann hafi fengið allar þessar áskoranir. „Það er allt í lagi að kjósa, en það er enginn stór ágreiningur á milli mín og Heimis Við erum alveg á sömu línunni,“ segir Brynjar. Ekki sé um neinar stríðandi fylkingar í félaginu að ræða.

Brynjar segir að markmið sitt sé að efla félagið og láta það vigta meira á þeim umbrotatímum sem nú eru. „Þetta eru svo sérkennilegir tímar,“ segir Brynjar. Brynjar segist annars vera mjög ánægður með störf lögmanna frá bankahruni. „Ég er almennt mjög ánægðir með lögmenn í landinu. Þetta eru yfir höfuð góðir og velmenntaðir menn og konur,“ segir Brynjar.

Brynjar segist ekki hafa lagt í mikla kosningabaráttu fyrir aðalfundinn. „Nei nei. Þú bara hefur samband við þá sem þú telur líklegt að muni kjósa þig og reynir að brýna fyrir þeim að mæta á kjörstað,“ segir Brynjar.

Fráfarandi formaður Lögmannafélagsins er Lárentsínus Kristjánsson, sem einnig gegnir stöðu formanns skilanefndar Landsbankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×