Innlent

Höfum ekki efni á að reka norrænt velferðarkerfi

Uppselt var á skattadag Deloitte í gær og setið í öllum sætum Grand Hótels. Þeir sem ekki fengu pláss í aðalrýminu gátu fylgst með ræðumönnum af skjávarpa í öðrum sal.  Fréttablaðið/GVA
Uppselt var á skattadag Deloitte í gær og setið í öllum sætum Grand Hótels. Þeir sem ekki fengu pláss í aðalrýminu gátu fylgst með ræðumönnum af skjávarpa í öðrum sal. Fréttablaðið/GVA
Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og aðstæður hér nú eru frábær efniviður fyrir djúpa og langvinna kreppu. Þetta er mat Ragnars Árnasonar, prófessors við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Ragnar benti á það í erindi sem hann hélt á þéttsetnum skattadegi á vegum Deloitte í gær, að þjóðin stæði nú frammi fyrir dýpstu kreppu sem sést hafi hér frá stofnun lýðveldisins, ef ekki frá byrjun síðustu aldar. Reikna megi með að samanlagður eignabruni þjóðarinnar á fasteigna- og hlutabréfamarkaði frá miðju ári 2007, þegar Úrvalsvísitala Kauphallarinnar náði hámarki, nemi á milli þrjú til fimm þúsund milljörðum króna, sem jafngildi tveimur til þremur vergum landsframleiðslum. Á sama tíma glími þjóðin við meiri erlendar skuldaklyfjar en nokkru sinni.

Ragnar sagði erfitt að komast upp úr þessum aðstæðum, í raun standi flestar aðgerðir stjórnvalda í vegi fyrir því. „Ef við sökkvum niður í kreppuna verður æ erfiðara fyrir ríkið að afla tekna á komandi árum,“ sagði hann og lagði áherslu á að við þær aðstæður væri talsverð áhætta á greiðsluþroti ríkisins.

Ragnar sagði einu sjáanlegu leiðina út úr vandanum að búa í haginn fyrir hagvöxt. Efla verði fjárfestingu í fjármunum sem muni skapa framleiðslugetu í framtíðinni og gera vinnu ábatasamari svo fólk leiti ekki í svarta atvinnustarfsemi. Ekki megi horfa til næstu fjögurra ára heldur þrjátíu. Þetta megi ýmist gera með því að lækka skatta eða halda þeim óbreyttum frá því sem áður var og bæta rekstrarumhverfið svo fjárfestar sjái hag í því að færa fé í rekstur hér. „Lægri skattar ýta undir atvinnuþátttöku og hagvöxt.

Þetta er klassískt ráð gegn kreppu og menn deila ekki um það,“ sagði Ragnar og bætti við að ofan á þetta verði að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. „Þetta á við um velferðarkerfið. Við höfum ekki efni á að reka það af svipuðum gæðum og á hinum Norðurlöndunum. Það er að drepa okkur. Við verðum að skera það niður á eins mannúðlegan og hagkvæman hátt og við getum,“ sagði hann.

jonab@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×