Innlent

Kvika færist í átt að toppgíg Eyjafjallajökuls

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Skjálftavirkni í Eyjafjallajökli hefur verið að færast í aukana á ný undanfarnar tvær vikur og tengir Veðurstofan það við kvikuhreyfingar í eldstöðinni. Mælingar sýna útþenslu fjallsins sem taldar eru benda til kvikuflutnings upp í jarðskorpuna í átt að toppgíg fjallsins, eða norðausturjaðri hans.

Veðurstofan vekur athygli á því að laust upp úr klukkan sex í gærmorgun varð skjálfti af stærðinni 3 undir Eyjafjallajökli og að síðastliðnar tvær vikur virðist skjálftavirkni þar vera að færast í aukana á ný, miðað við undanfarna fjóra mánuði.

Segir Veðurstofan að sjálftavirkni, sem mældist undir fjallinu síðastliðið sumar, sé líklega merki um kvikuhreyfingar og innskotsmyndun á nokkurra kílómetra dýpi í eldstöðinni. Alls mældust þá á nokkurra vikna tímabili um 200 skjálftar, flestir á 9-11 km dýpi, í þyrpingu rétt norðaustur af gígnum á toppi fjallsins en einnig var dreifð virkni undir suðurhlíðum fjallsins.

Samfara því færðist GPS-mælistöð Veðurstofunnar á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum um 1 cm til suðurs, sem að mati Veðurstofunnar bendir einnig til útþenslu fjallsins vegna aðflutnings kviku ofarlega í jarðskorpuna. Stöðin virðist nú aftur vera farin að færast til suðurs, líkt og síðastliðið sumar.

Þessi atburður er talinn svipaður fyrri kvikuinnskotahrinum í Eyjafjallajökli á árunum 1994 og 1999. Telur Veðurstofan að í heild sýnir jarðskjálftadreifin aðfærslurás kviku frá botni jarðskorpunnar á 22 km dýpi og upp í gegnum skorpuna, nokkurn veginn undir norðausturjaðri toppgígsins, og endurspeglar einnig streymi kvikunnar til suðurs í þrjú aðskilin sylluinnskot undir suðurhlíðum Eyjafjallajökuls.

Hvort þetta þýði að eldgos sé í uppsiglingu segir Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, ekki hægt að útiloka að svo verði en það sé ekki að gerast í augnablikinu, og minnir á að menn hafi áður séð kvikuinnskot í fjallið án þess að gos yrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×