Innlent

Fangar við slæman aðbúnað afpláni refsingu sína heima

Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir
Íslensk stjórnvöld hafa átt í viðræðum við brasilísk stjórnvöld að undanförnu um flutning dæmdra fanga til afplánunar í föðurlandinu. Ástæða þessa er afplánun þriggja Íslendinga í fangelsum í Brasilíu. Vitað er að aðstæður þeirra og aðbúnaður er mismunandi, að sögn Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra, sem segir það hvatann að viðræðunum, en samningur sé ekki frágenginn.

„Hingað til höfum við ekki neitað föngum um að koma heim til afplánunar," greinir ráðherra frá. „Hins vegar er málum þannig háttað að hér er plássleysi í fangelsum. Við veltum fyrir okkur við hvað við ættum að styðjast þegar við færum að taka afstöðu til beiðna um að vinna að því að fá fanga heim."

Ragna kveðst hafa lagt málið fyrir ríkis­stjórn, sem hefði samþykkt tillögu sína þess efnis að meginreglan væri sú að menn afpláni þar sem þeir eru dæmdir.

„Hins vegar verður tekið tillit til aðstæðna hverju sinni, og mæli þær eindregið með því að íslenskir fangar komi heim þá beiti íslensk yfirvöld sér fyrir því."

Ragna segir að íslensk yfirvöld muni nú leita eftir staðfestingu á aðbúnaði íslensku fanganna og að því loknu verði tekin ákvörðun um hvernig með málið skuli fara.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×