Innlent

Viðskiptaþvinganir gegn Ísrael ekki til skoðunar

Mynd/Anton Brink
Í málefnum Ísraels og Palestínu hafa viðskiptaþvinganir á Ísrael ekki komið til alvarlegrar skoðunar, að minnsta kosti enn sem komið er. Þetta kemur fram í svari Össur Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur, varaþingmanns Alþingis. Hann útilokar þó ekki að nýjum úrræðum verði beitt á næstu missirum.

Anna Pála vildi vita hvort Össur teldi nauðsynlegt að beita Ísraelsríki viðskiptaþvingunum vegna mannréttindabrota í Palestínu og ólöglegrar landtöku Ísraela þar.

Össur segir að alþjóðasamfélagið hafi ekki talið tímabært að beita slíkum þvingunum og það hafi Ísland, sem og önnur Norðurlönd, verið sammála um. Þess í stað hafi megináhersla verið lögð á að endurvekja friðarviðræðurnar og að fá Ísrael til að stöðva landtöku á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum.

„Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessa nálgun og í því samhengi lagt þunga áherslu á skyldu Ísraelsríkis að virða mannréttindi Palestínumanna og uppfylla skyldur sínar sem hernámsaðila samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Þessu hefur verið komið á framfæri bæði tvíhliða við Ísraelsstjórn og einnig í málflutningi á alþjóðavettvangi, m.a. í ræðu utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York síðastliðið haust og á fundum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf," segir Össur.

Hann segir brýnt að alþjóðasamfélagið, ekki síst Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, beiti sér með virkari hætti í friðarferlinu. „Takist ekki að endurvekja friðarviðræðurnar og sýna fram á raunverulegan árangur á næstu missirum er ekki útilokað að alþjóðastofnanir eða ríkjahópar horfi til þess að beita nýjum úrræðum til að knýja fram niðurstöðu í málinu og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og mannúðarlögum," segir Össur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×