Erlent

Herforingjar í yfirheyrslu

Lögregla og her fyrir utan dómshúsið í Istanbúl meðan yfirheyrslur fóru fram.fréttablaðið/AP
Lögregla og her fyrir utan dómshúsið í Istanbúl meðan yfirheyrslur fóru fram.fréttablaðið/AP

Handtökur og yfirheyrslur yfirmanna í tyrkneska hernum þykja til marks um dvínandi áhrif hersins þar í landi og sterka stöðu núverandi stjórnvalda.

Á mánudag var 51 fyrrverandi og núverandi yfirmaður í hernum tekinn höndum. Í gær hófust síðan yfirheyrslur yfir þeim. Mennirnir eru sakaðir um að hafa ætlað sér að steypa stjórn landsins á árunum 2003 til 2005.

Bæði skjölum og upptökum með samræðum herforingjanna hefur verið lekið á Netið, en ágreiningur er um hvort upptökurnar séu falsaðar. Þar heyrist einn þeirra segja stjórnina ætla sér „að rífa niður landið og breyta því í annað íslamskt ríki“. Sama rödd segist ætla að hleypa liði sínu lausu á Istanbúl: „Það er skylda okkar að grípa til miskunnarlausra aðgerða.“

Herinn hefur áratugum saman haft mikil ítök í stjórn landsins og gripið til þess að steypa stjórninni, hafi yfirmönnum hersins ekki litist á stefnu hennar og störf.

Recep Tayyip Erdogan forsætis­ráðherra hefur verið við völd síðan 2003.

Flokkur hans, Réttlætis- og þróunarflokkurinn, hefur yfirgnæfandi meirihluta á þingi, þannig að stjórnin getur í reynd farið sínu fram að vild.

Erdogan á rætur að rekja til hreyfingar harðra íslamista og stjórnarflokkur hans hefur á stefnuskrá sinni að efla veg íslamskrar trúar, en segist þó eingöngu gera það á forsendum lýðræðis, líkt og til dæmis kristilegir demókrataflokkar í Evrópuríkjum sem hafa kristileg gildi í hávegum.

Herinn hefur á hinn bóginn jafnan haft í hávegum hinn veraldlega grundvöll tyrkneska ríkisins, þar sem þess er vandlega gætt að blanda ekki saman trúmálum og stjórnmálum.

Erdogan segir stjórn sína nú vera að undirbúa stjórnarskrárbreytingu, til að draga úr áhrifum stjórnarbyltingar hersins árið 1980 á stjórnskipan landsins.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×