Íslenski boltinn

Þorvaldur: Get bæði verið sáttur og ósáttur með tímabilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. Mynd/Anton
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, varð að sætta sig við 3-0 tap á móti FH í dag þrátt fyrir að hans menn hafi sýnt lipra takta stóran hluta úr leiknum. FH-liðið spilaði skynsamlega úr sínu og landaði sigri og um leið öðru sætinu í deildinni.

„Ef við hefðum nýtt færin okkar þá hefðum við unnið leikinn. Við vorum betri í fyrri hálfleik og spiluðum þá vel en við förum inn í hálfleik 1-0 undir. Við löbbuðum útaf í þessum leik eftir að hafa tapað 3-0 en ég gat ekki séð að FH hafi verið að spila sinn besta leik. Þeir vinna samt 3-0 og við verðum að sætta okkur við það," sagði Þorvaldur eftir leikinn.

„Við gefum þeim þriðja markið með klaufalegum hætti og annað markið er líka klaufalegt. Við fengum góð færi sem við áttum að geta skorað úr en við náðum því ekki því miður. Ég vil óska þeim til hamingju með árangurinn og annað sætið því þeir eiga það skilið," sagði Þorvaldur.

„Ef ég met tímabilið okkar þá get ég bæði sagt að ég er mjög sáttur og ég get líka sagt það að ég er ekki sáttur. Við hefðum alveg getað komist ofar á tímapunktum í mótinu," segir Þorvaldur og útskýrir.

„Við hefðum alveg geta komist ofar í töflunni á vissum tímapunktum í mótinu sérstaklega ef að við hefðum haft meiri heppni í meiðslum manna á þessum tímapunktum. Það gerðist líka á þeim tíma sem við lentum í meiðslunum þá voru ákvarðanatökur dómara alveg skelfilegar fyrir okkar hönd. Við misstum meðal annars 3 og 4 menn úr vörninni okkar," sagði Þorvaldur og bætti við:

„Ég get líka horft öðruvísi á hlutina og sagt að við hefðum líka getað lent í meiri hrakningum á þeim tíma sem við vorum í vandræðum og vorum líklegir til að vinna ekki leik. Þá hefðum við getað dregist neðar og verður maður því ekki að vera sáttur," sagði Þorvaldur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×