Íslenski boltinn

Agnar Bragi: Við erum bara fallnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agnar Bragi Magnússon.
Agnar Bragi Magnússon. Mynd/Valli
Selfyssingurinn Agnar Bragi Magnússon var svekktur eftir 0-2 tap á móti ÍBV á heimavelli í Pepsi-deildinni í kvöld. Tapið þýðir að Selfyssingar eiga aðeins tölfræðilega möguleika á að halda sér uppi í deildinni.

„Við erum bara fallnir. Við þyrftum að vinna tvo síðustu leikina 10 eða 15-0 þannig að þetta er bara búið því miður," sagði Agnar Bragi.

„Við byrjuðum ekki leikinn fyrr en eftir fimmtán til tuttugu mínútur. Við gefum þeim mark og þannig hefur þetta verið í allt sumar. Við höfum verið að gefa mörk og reynt síðan að komast inn í leikina aftur. Því miður er það alltof dýrt að gefa mörk í þessari deild eða að velja sér einhverja hálfleika," sagði Agnar Bragi.

„Við vorum góðir í seinni hálfleik en við fundum ekki netmöskvanna. Svo fáum við á okkur klaufalegt mark í lokin," sagði Agnar sem fékk þá dæmt á sig víti en vildi ekki tjá sig um hvort að það hafi verið réttur dómur eða ekki.

„Við höfum verið að gefa mörkin á algjörum klaufamistökum og reynsluleysi. Það er búið að sýna sig að við erum að gera barnarleg mistök eins og þjálfarinn segir. Þetta fyrsta mark var bara röð mistaka. Bakvörðurinn er ekki mættur, ég sel mig og svo þegar sendingin kemur á fjær er sá varnarmaður ekki mættur og við búnir að fá á okkur mark. Þetta er búið að vera svona í allt sumar," sagði Agnar Bragi en Selfossliðið á engu að síður eftir tvo leiki í deild hinna bestu.

„Við ætlum að klára tímabilið með sæmd og höfum hér eftir engu að tapa þannig séð. Við förum bara í þessa tvo síðustu leiki og klárum verkefnið eins vel og við getum," sagði Agnar Bragi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×