Innlent

Hundur gómaði mink á Reykjanesi

Boði Logason skrifar
Josh kampakátur með bráðina í kjaftinum.
Josh kampakátur með bráðina í kjaftinum. Mynd/ÞH
„Það var skemmtilegt að lenda í þessu, sérstaklega miðað við það hvernig þetta endaði," segir Þröstur Halldórsson, hundaeigandi í Reykjanesbæ.

Þröstur fór með Golden retriever-hundana sína tvo, Josh og Grace, í daglegan göngutúr í móanum á milli Innri-Njarðvíkur og Voga í síðustu viku. Í miðjum göngutúr fóru hundarnir tveir að elta eitthvað dýr, sem Þröstur hélt í fyrstu að væri mús, en síðar kom svo í ljós að það var minkur.

Þvílíkt hvæs

„Við erum búin að fara með hundana í göngutúr á hverjum degi í þrjú og hálft ár og ég hef aldrei lent í svona áður," segir Þröstur. „Við erum að ganga meðfram malarvegi og allt í einu tek ég eftir því að Josh og Grace fara að elta eitthvað út í móanum. Þegar þau eru komin í töluverða fjarlægð frá mér þá heyri ég allt í einu þvílíkt hvæs, ég vissi ekkert hvað það var," segir Þröstur sem lýstir hvæsinu sem mjög háu kattarhvæsi."

„Mér datt í hug að þetta væri minkur og hljóp á staðinn til þeirra. Því ég hef heyrt þá sögu að minkar geta ráðist á hunda og dýr með því að bíta í trýnið á þeim. Mér var því ekki alveg sama ef þeir væru að kljást við mink út í móanum." Hann segir að hann hafi séð hundana tvo hafa náð góðu taki á minknum. „Svo sé ég Josh með hann í kjaftinum og hendir honum svona upp í loftið. Josh var svakalega ánægður með að hafa veitt minkinn og var með hann í kjaftinum svaka stoltur," segir Þröstur.

Seldi ekki skinnið

Þröstur segir að Josh sé búinn að vera elta mýs í allt sumar og finnist það rosalega skemmtilegt. „Hann er alveg fastur í músunum, þetta á ekkert eftir að bæta það," segir hann. „Ég hafði ekki það miklar áhyggjur af Josh því hann er svo vel þjálfur, ég hafði hins vegar meiri áhyggjur af Grace dóttur hans, sem er yngri og óreyndari."

Aðspurður segist hann ekki hafa selt skinnið af minknum. „Ég er búinn að henda honum í ruslið, ég vildi ekkert vera halda í þetta." Hann segist hafa séð alls konar dýr í móanum svo sem kanínur, rjúpu, villiketti og grágæs. „Ég hef líka séð refaslóðir en aldrei séð ref."

„Ég hef ekki þjálfað þá þannig að þeir eigi að elta lifandi bráð og drepa hana en ég á svo sem alveg von á því að þetta gerist aftur," segir Þröstur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×