Innlent

Jóhanna vongóð um að betri lausn náist

Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/ GVA.
Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/ GVA.
„Ég lít alls ekki svo á að það hafi slitnað upp úr viðræðunum. Málið er erfitt en ég tel að það séu tækifæri í stöðunni. Markmiðið er að ná árangri og ég hef fulla trú á að það takist."

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um stöðuna í Icesave-málinu eftir fund með forystumönnum stjórnmálaflokkanna og íslensku samninganefndinni í gærkvöldi.

Jóhanna segir tilboð Breta og Hollendinga frá í síðustu viku „verulegan áfanga" en telur hægt að fá betri niðurstöðu. „Við höfum þegar náð fram verulegri lækkun á greiðslubyrðinni, um kannski 70 til 80 milljarða króna, en ég held að það sé hægt að vinna málið betur." Nefnir hún breytingar á vaxtaákvæðum, hraðari greiðslur úr búi Landsbankans og nýjar fjármögnunarleiðir. Hún metur vaxtaákvæði tilboðsins hagstætt fram til ársins 2012 en eftir það þyngist greiðslubyrðin. Því þurfi að breyta.

Bretar og Hollendingar sögðu tilboð sitt þeirra síðasta og besta. Jóhanna telur að ekki þurfi að taka þau orð bókstaflega. Telur hún jafnframt að ekki hafi fengist viðbrögð við gagntilboði Íslendinga á fundi samninganefndanna í Lundúnum á fimmtudag þar sem samningamenn Breta og Hollendinga hafi skort umboð til að ræða það. Vonast hún til að samband komist á milli þjóðanna um helgina.

Enn er áformað að þjóðar­atkvæða­greiðslan um Icesave fari fram eftir viku. Jóhanna segir mikilvægt að samningar takist áður; erfiðara kunni að verða að semja að henni lokinni.

Aðspurð segir Jóhanna ekki koma til greina af sinni hálfu að hætta viðræðum og koma málinu fyrir dómstóla. „Við eigum ekki að gefast upp. Það eru allir möguleikar á að ljúka þessu." Uppnám málsins kosti háar fjárhæðir, það þurfi líka að taka með í reikninginn.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×