Innlent

Undrast ofsafengin viðbrögð biskups vegna trúboðsbanns

Karl Sigurbjörnsson
Karl Sigurbjörnsson

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, oftúlkar tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um takmarkanir við aðgangi trúfélaga að skólastarfi í borginni. Þetta segir Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Henni finnst viðbrögðin ofsafengin.

Biskup gagnrýndi tillögu mannréttindaráðsins í prédikun sinni í Hallgrímskirkju í gær, sagði hana skefjalausa fordóma og andúð á kristni og Þjóðkirkjunni. Gangi tillagan eftir muni hún stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð. „Það má sannarlega sjá í drögum að samþykkt mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, sem krefst þess að lokað verði á aðkomu kirkjunnar að skólunum, kirkjuferðir verði bannaðar og sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi sömuleiðis,“ sagði biskup og bætti við að lítið sé gert úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna með því að leggja til að í stað þeirra verði kallaðir til fagaðilar þegar áföll dynji yfir. „Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna,“ sagði hann í prédikun sinni.

Margrét segir meininguna ekki að ráðast á Þjóðkirkjuna. „Mér finnst málið í flestum tilvikum á misskilningi byggt og umræðan farin um víðan völl. Það er verið að setja hömlur á trúboð á skólatíma. Auðvitað bitnar það á Þjóðkirkjunni,“ segir Margrét og efast um að tillagan hamli starfi kristinfræðikennara í grunnskólum. „Ég sé ekki að kirkjan þurfi að óttast neitt enda engu verið að breyta. Það er ekki verið að banna sálmasöng og leggja jólaskemmtanir af,“ segir hún.

Margrét bendir á að lengi hafi legið fyrir að setja þyrfti skýrar reglur um trúboð í skólum á skólatíma, eða allt frá því starfshópur um samstarf skóla við trúar- og lífsskoðunarhópa skilaði af sér skýrslu um málið fyrir þremur árum. Hins vegar hafi ekkert verið gert.

Margrét bendir á að málið sé skammt á veg komið, enn sé beðið umsagnar fagráða og skólasamfélaga um tillögu mannréttindaráðsins. „Það mun vega þungt.“- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×