Innlent

Stofnandi Wikileaks treystir ekki íslenskum stjórnvöldum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Julian Assange er stofnandi Wikileaks. Mynd/ afp.
Julian Assange er stofnandi Wikileaks. Mynd/ afp.
Dagblaðið New York Times fullyrðir að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, treysti ekki Íslandi vegna mikilla tengsla stjórnvalda við bandarísk stjórnvöld. Þetta kemur fram í grein um Assange sem birtist á vef New York Times í gær.

Í greininni er sagt frá því að Assange hegði sér eins og hundeltur maður. Hann bóki sig á hótel undir fölskum nöfnum, liti hár sitt, sofi á sófum og gólfum og noti reiðufé í staðinn fyrir greiðslukort. Peningana fái hann oftar en ekki lánaða hjá vinum sínum.

New York Times segir að Assange hafi haldið til í Stokkhólmi um skeið. Þaðan hafi hann farið til Berlínar og því næst til Lundúna. Hann geti verið í Bretlandi á vegabréfi sínu í sex mánuði enda sé hann ástralskur að uppruna. Hann vill hins vegar ekki staldra lengi við í Bretlandi enda óttast hann að bresk stjórnvöld muni aðstoða bandarísk stjórnvöld ef þau grípa til aðgerða vegna uppljóstrana Wikileaks.

Blaðið segir að áströlsk stjórnvöld hafi þegar lofað bandarískum stjórnvöldum slíkri aðstoð. Blaðið segir að á Íslandi sé frelsi fjölmiðla mikið og mikill stuðningur við Wikileaks. Ísland sé hins vegar ekki fýsilegur kostur til að dveljast á vegna þess að stjórnvöld í Washington geti of auðveldlega haft áhrif á íslensk stjórnvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×