Innlent

Segir ómögulegt að Novator hefði getað hagnast á krónuhruni

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Í minnisblaði sem bankaráðsmönnum Landsbankans var sent árið 2006 er fullyrt að Novator taki 50 milljarða skortstöðu í íslensku krónunni. Heiðar Már Guðjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Novators, segir þrátt fyrir það ljóst að Novator hefði aldrei getað hagnast á falli krónunnar.

Novator og Heiðar Már hafa verið talsvert í sviðsljósinu undanfarna viku vegna tölvupósta sem DV hefur birt, og eru sagðir sýna að Heiðar hafi ætlað sér að græða á falli krónunnar með stöðutöku, og beinlínis skipulagt árás á gjaldmiðilinn með aðstoð erlendra fjárfesta.

Þessu hefur Heiðar staðfastlega neitað og lýst því yfir að hvorki hann né Novator hafi tekið stöðu gegn krónunni, meðal annars í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Í minnisblaði um ástand hagkerfisins sem Heiðar samdi að hluta og sent var lykilmönnum í Landsbankanum í ársbyrjun 2006, er hins vegar fullyrt að Novator taki 50 milljarða skortstöðu í krónunni.

Heiðar segir að þarna sé vísað til afleiðusamninga, sem hefðu hækkað í verði ef krónan hefði veikst. Þannig hafi fyrirtækið viljað tryggja sig gegn gengisfalli, þar sem Novator átti mikið af íslenskum eignum sem fjármagnaðar voru erlendis, og hefðu því tekið á sig högg við gengisfall.

„Ef þú átt hús upp á 500 milljarða og þú kaupir tryggingu fyrir hluta þess, segjum 50 milljarða, þá kveikirðu samt ekki í húsinu. Í þessu tilfelli er það þannig að ef Novator kaupir afleiður, eða gengisvarnir, fyrir lítinn hluta af stórum eignum sínum á Íslandi, þá er ekki nokkur leið fyrir hann að græða á slíku," segir Heiðar.

Heiðar segir að eignir Novators innanlands hafi verið tífalt meiri en það sem í minnisblaðinu er kallað skortstaða, og því hafi hrein staða fyrirtækisins verið með krónunni. En gat Novator þá grætt á hruni krónunnar?

„Nei, á engan hátt. Okkar hagsmunir lágu með Íslandi í þessu. Við áttum hér eignir sem við ætluðum ekki að selja, og við ætluðum ekki að reyna að koma á einhverjum óróleika. Þess vegna voru það ekki hagsmunir okkar að neitt slíkt gæti hent."

Í minnisblaðinu sem bankaráðsmönnum og stjórnendum Landsbankans var sent fyrir tæpum fimm árum var varað við því að íslenska hagkerfið væri í ójafnvægi, og leiðrétting væri óhjákvæmileg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×