Lífið

Regnboganum verði breytt í menningarmiðstöð

Ari Kristinsson segir íslenska kvikmyndagerðarmenn og áhugafólk um evrópskar kvikmyndir og -sögu hafa mikinn áhuga á að bjarga Regnboganum frá lokun. Húsnæðið gæti nýst vel undir nokkurs konar menningarmiðstöð fyrir kvikmyndagerð.
Ari Kristinsson segir íslenska kvikmyndagerðarmenn og áhugafólk um evrópskar kvikmyndir og -sögu hafa mikinn áhuga á að bjarga Regnboganum frá lokun. Húsnæðið gæti nýst vel undir nokkurs konar menningarmiðstöð fyrir kvikmyndagerð.
Hugmyndir eru uppi um að koma Regnboganum til bjargar og breyta þessu eina kvikmyndahúsi miðborgarinnar í svokallað arthouse-kvikmyndahús með kaffihúsi, bókasafni, sérhæfðum kvikmyndasýningum og kvikmyndahátíðum, og kvikmyndasýningum fyrir skóla og ferðamenn. Kvikmyndamiðstöð Íslands er að flytja upp á aðra hæð Regnbogahúsnæðisins og sjá kvikmyndagerðarmenn og áhugafólk um sjálfstæða kvikmyndagerð þarna kjörið tækifæri til að sameina kvikmyndastarfsemina undir einn hatt.

Ari Kristinsson, formaður SÍK, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að miklar umræður hafi átt sér stað um framtíð Regnbogans. Kvikmyndagerðarfólk geti ekki hugsað þá hugsun til enda að miðborgin glati sínu eina kvikmyndahúsi. „Þetta gæti verið rétta arthouse-kvikmyndahúsið,“ segir Ari. Hann bendir á að stofnanir kvikmyndabransans séu frekar dreifðar, kvikmyndasafnið sé til að mynda í Hafnarfirði en í Regnboganum fengi það frábæra aðstöðu. „Þetta yrði miðstöð fyrir þessar óhefðbundnu kvikmyndir og ég tel að það sé alveg mögulegur rekstargrundvöllur fyrir slíkri kvikmyndamiðstöð. Þarna væri hægt að sýna gamlar íslenskar myndir, kvikmyndasögulegar myndir og svo þessar evrópsku myndir sem fá ekki alltaf brautargengi í hinum venjulegu kvikmyndahúsum. Þarna væri líka kominn kjörinn vettvangur fyrir kvikmyndahátíðir,“ segir Ari sem sér það fyrir sér að þarna yrði nokkurs konar menningarmiðstöð fyrir kvikmyndagerð.

Ísleifur B. Þórhallsson hjá Græna ljósinu heldur til að mynda sína árlegu bíódaga næstu þrjár vikur. Hann segir það verða erfitt að halda slíka kvikmyndahátíð ef Regnboginn lokar. Hann viðurkennir að ákveðinna breytinga sé þörf og er sammála hugmyndum Ara um að koma á fót alvöru arthouse-kvikmyndahúsi líkt og þekkist í öðrum stórborgum. freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.