Innlent

Vill flýta landsfundi eftir afsögn Þorgerðar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnti afsögn sína sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og að hún myndi taka sér leyfi sem þingmaður tímabundið. Mynd/Víkurfréttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnti afsögn sína sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og að hún myndi taka sér leyfi sem þingmaður tímabundið. Mynd/Víkurfréttir
Óvenjuleg staða er komin upp í Sjálfstæðisflokknum eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku í flokknum, og tilkynnti að hún hygðist víkja tímabundið af þingi. Þorgerður tilkynnti afsögn sína á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem fram fór í Stapa í Reykjanesbæ á laugardag.

Kjör á forystu Sjálfstæðisflokksins fer aðeins fram á landsfundum flokksins, og sá næsti er ekki fyrirhugaður fyrr en í september 2011, segir Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri flokksins.

Í ávarpi sínu á flokkráðsfundinum sagðist Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætla að kalla miðstjórn flokksins saman í dag, mánudag. Miðstjórnin mun ræða ákvörðun Þorgerðar, og ætlar Bjarni að leggja til við miðstjórnina að landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði flýtt.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins getur í undantekningartilvikum kosið nýjan formann. Það á eingöngu við ef sitjandi formaður fellur frá eða forfallast varanlega. Jónmundur segir að hugsanlega megi skilja þá klausu þannig að flokksráðinu sé einnig heimilt að velja nýjan varaformann, sem sitja myndi fram að næsta landsfundi.

Talsverðan tíma tekur að öllu jöfnu að undirbúa landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Jónmundur segir fyrirsjáanlegt að undirbúningurinn muni taka nokkra mánuði, ákveði miðstjórn í dag að flýta landsfundinum.

brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×