Enski boltinn

Unglingastarf Liverpool ónýtt!

Arnar Björnsson skrifar
Steven Gerrard og félagar á æfingu.
Steven Gerrard og félagar á æfingu. Mynd/AFP

Unglingaþjálfari Liverpool, Spánverjinn Rodolfo Borrell, segir að unglingastarf félagsins sé handónýtt. Í samtali við Liverpool Echo segir hann að það taki tvö ár að byggja upp starfið.

Borrell kom til Liverpool fyrir ári frá Barcelona þar sem hann þjálfaði m.a. Cesc Fabregas og Lionel Messi.

Hann segir að leikmenn á borð við Steven Gerrard og Robbie Fowler sem komu úr unglingaliðum Liverpool séu ekki á leiðinni í aðalliðið næstu tvö árin. Borrell er ómyrkur í máli og segir að 18 ára liðið eigi engan framherja, jafnvægið í liðinu sé ekkert og piltarnir hafi engan leikskilning.

Borrell segir að á þeim 8 mánuðum sem hann hafi starfað hjá Liverpool hafi orðið töluverðar framfarir. Hann bendir á að bestu leikmenn Barcelona séu Katalónarnir og bestu leikmenn Liverpool verða að vera Englendingar.

Eftir tvö til þrjú ár nær vonandi einhver úr unglingaliðinu að komast í aðalliðið og ég reikna með því að sá piltur verði enskur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×