Innlent

Alþjóðlegi bangsadagurinn í dag

Alþjóðlegi bangsadagurinn er í dag og af því tilefni býður Lýðheilsufélag læknanema öllum börnum á aldrinum 3 til 6 ára að heimsækja Bangsaspítalann með bangsann sinn á laugardag. Bangsaspítalinn verður á göngudeild Barnaspítalans komandi laugardag og verður opinn milli klukkan 10 og 16.

Bangsadagurinn er haldinn hátíðlegur 27. október ár hvert en það var fæðingardagur Theodore Roosevelt, fyrrverandi bandaríkjaforseta, sem gjarnan var kallaður Teddy sem er enska orðið yfir bangsa.

Markmið Bangsaspítalans er að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og trausti gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, heilbrigðisstofnunum og því starfi sem þar fer fram. Hugmyndin er sú að barn, í hlutverki foreldris, komi með veikan bangsa eða dúkku til læknis.

Læknanemar benda á að gott er ef foreldrar ræða fyrirfram við barnið um það hvernig bangsinn er veikur, það er hvort hann sé með hálsbólgu, magapest eða brotinn fót. Þegar á spítalann er komið fær barnið að innrita bangsann og að því loknu kemur bangsalæknir og vísar barninu inn á læknastofu þar sem læknirinn skoðar bangsann og veitir honum þá aðhlynningu sem hann þarf á að halda, hvort sem það er röntgenmynd, plástur eða umbúðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×