Enski boltinn

Aston Villa aftur upp í sjötta sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Milner skorar hér úr vítaspyrnu í kvöld.
James Milner skorar hér úr vítaspyrnu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa endurheimti sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 2-0 útisigri á Hull í kvöld.

Villa á í harðri baráttu um Evrópusæti í deildinni við Manchester City, sem er í fimmta sæti, og Liverpool sem er nú í því sjöunda. Aðeins þrjú stig skilja þessi lið að.

Öll þessi lið eiga þó enn möguleika á að ná fjórða sæti deildarinnar og öðlast þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Tottenham er sem stendur í fjórða sæti, tveimur stigum á undan City.

Gabriel Agbonlahor skoraði fyrra mark Villa er hann færði sér slakan varnarleik heimamanna í nyt. James Milner skoraði svo síðara markið úr vítaspyrnu eftir að George Boateng braut á honum í teignum.

Leikurinn tafðist um tíu mínútur þar sem Hollendingurinn Jan Vennegoor of Hesselink hjá Hull hlaut slæm höfuðmeiðsli.

Hull er því enn í átjánda sæti deildarinnar með 28 stig, þremur á eftir West Ham þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu. Burnley er í nítjánda sæti, stigi á eftir Hull, en Portsmouth er í botnsætinu og þegar fallið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×