Innlent

Fyrrverandi ráðherra íhugaði framboð til stjórnlagaþings

Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og þingmaður.
Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og þingmaður. Mynd/GVA

Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Alþýðubandalagsins, íhugaði að gefa kost sér til stjórnlagaþings. Framboðsfrestur rennur út á mánudag og hefur framboðum rignt inn síðustu daga og hafa yfir 130 skráð sig til leiks.

Ragnar og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru gestir í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun þar sem fjallað var um stjórnarskránna um stjórnlagaþingið.

Ragnar sagði að fjölmargir hafi skorað á sig að gefa kost sér en hann hafi að lokum ákveðið að gera það ekki. Yngri kynslóðin eigi að fjalla um þessi mál. „Þær eru fjölmennar og þær eru að koma nýjar að borðinu. Það er mín persónulega skoðun, en ég er ekki á móti því að aðrir á mínum aldri bjóði sig fram."

Fyrrverandi ráðherrar óvelkomnir

Þorsteinn sagðist aftur á móti ekki hafa íhugað að sækjast eftir sæti á stjórnlagaþinginu. „Fyrst og fremst vegna þess að Alþingi tók ákvörðun um það stjórnmálmenn ættu ekki að sitja á stjórnlagaþinginu. Þó það sé í lögunum afmarkað við þá sem sitja á Alþingi þá fannst mér það nú leiða af sjálfu sér að fyrrverandi þingmenn og ráðherrar til margra ára væru ekki velkomnir. Þannig að það kom aldrei til álita að minni hálfu."

Frambjóðendur til stjórnlagaþings

Framboðsfrestur til stjórnlagaþings rennur út á morgun. Samkvæmt óopinberum lista yfir frambjóðendur á Wikipedia hafa meira en 130 gefið kost á sér.

Kosningar til stjórnlagaþings verða haldnar þann 27. nóvember næstkomandi en hver og einn kjörgengur Íslendingur mun geta kosið 25 frambjóðendur og raðað þeim í forgangsröð. Miðað er við að 25 manns muni skipa þingið en þeim getur fjölgað ef leiðrétta þarf vegna kynjasjónarmiða. Heimild er þá til þess að fjölga fulltrúum um allt að 6, í því skyni að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%.

Ráðgefandi stjórnlagaþing mun síðan koma saman í síðasta lagi þann 15. febrúar á næsta ári til þess að endurskoða stjórnarskrá Íslands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×