Innlent

Ögmundur: Almennar aðgerðir nauðsynlegar

Dómsmálaráðherra segir að fjármálastofnanir, og þar með lífeyrissjóðir, verði að láta af þeirri afneitun sem þær hafa verið í og horfast í augu við að grípa þurfi til almennra aðgerða til lækkunar skulda heimilanna. Lífeyrissjóðirnir eigi allt sitt undir greiðslugetu almennings sem hafi tekið á sig tug prósenta kjararýrnun.

Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra, á pólitískar rætur að rekja til Sigtúnshópsins svokallaða. Hópurinn reis upp árið 1983 eftir að þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kippti á tímum óðaverðbólgu launavísitölunni úr sambandi en lánskjaravísitalan hélt áfram að hækkar skuldir heimilanna.

„Lánin snarhækkuðu en kaupmátturinn rýrnaði. Frá því í febrúar 2008 og fram á þennan dag hefur verðbólga verið 28,4% en á sama tíma hefur kaupmáttur launa rýrnað um 10,7% þannig að þetta er af nákvæmlega sömu rót sem þessi vandi er," segir Ögmundur.

Ögmundur er einn fimm ráðherra sem situr í aðgerðarhópi ríkisstjórnarinnar sem fundar þessa dagana með stjórnarandstöðunni og hagsmunaaðilum um aðgerðir fyrir skuldsett heimili. Hann segir óhjákvæmilegt að grípa til almennra aðgerða auk sértækra úrræða fyrir þá verst settu.

„Frá hruni hefur íslenska fjármálakerfið verið í sjálfafneitun. Það er óhjákvæmilegt að því tímaskeiði ljúki og að fjármálakerfið horfist í augu við eigin ábyrgð."

Þetta eigi jafnt við um lífeyrissjóði eins og aðrar fjármálastofnanir. Auk þeirra verst settu verði að koma til móts við millitekjufólk sem með herkjum nái að standa í skilum. „Til þess að lífeyrissjóðirnir og bankarnir geti dafnað inn í framtíðina þá verða þeir að hafa þjóð sem að hefur greiðslugetu," segir Ögmundur.

Mikilvægt sé að nú hafi ríkisstjórnin kallað alla að borðinu. Sérfræðingahópur hennar fundaði í dag, en í honum situr m.a annarra stjórnarmaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Hann segir samtökin taka þátt í viðræðunum meðan enn sé rætt um alvöru lausnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×