Innlent

Gömul sannindi í nýrri rannsókn

Ný könnun rennir stoðum undir að hormónagetnaðarvarnir geti dregið úr kynhvöt kvenna. Nordicphotos/Getty images
Ný könnun rennir stoðum undir að hormónagetnaðarvarnir geti dregið úr kynhvöt kvenna. Nordicphotos/Getty images
Hormónagetnaðarvarnir virðast geta haft neikvæð áhrif á kynhvöt kvenna, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í byrjun mánaðarins í læknaritinu Journal of Sexual Medicine. Netúgáfa Time vitnar til rannsóknarinnar undir yfirskriftinni „Lítil kynhvöt, konur? Pillunni kann að vera um að kenna.“

Spurningalisti var lagður fyrir yfir þúsund kvenkyns læknanema í Þýskalandi.

„Niðurstaðan var að konur sem notuðu hormónagetnaðarvarnir, aðallega pilluna, höfðu minni kynhvöt og fundu fyrir minni kynæsingi en konur sem notuðu aðrar eða engar getnaðarvarnir,“ er haft eftir Alfred Mueck, yfirmanni Miðstöðvar kvenheilsu við háskólasjúkrahúsið í Tübingen í Þýskalandi.

Hann áréttar þó að rannsóknin sýni bara fylgni milli notkunar hormónagetnaðarvarna og kyn­deyfðar, ekki orsakasamband.

Ebba Margrét Magnúsdóttir, læknir hjá Landspítalanum og sérfræðingur í kvensjúkdómum, segir ný sannindi ekki að finna í þýsku rannsókninni, minni kynhvöt sé ein af þekktum aukaverkunum hormónagetnaðarvarna. „Konur koma oft og spyrja um þetta,“ segir hún, en áréttar um leið að fæstar konur finni fyrir slíkum aukaverkunum. „En þá notum við bara lykkjuna eða eitthvað annað,“ segir hún. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×