Innlent

Samfylkingin hefur skipað umbótanefnd

Andri Ólafsson skrifar
Ásgeir Beinteinsson skólastjóri leiðir nefndina. Mynd/ Vilhelm.
Ásgeir Beinteinsson skólastjóri leiðir nefndina. Mynd/ Vilhelm.
Samfylkingin hefur skipað umbótanefnd sem hefur það verkefni að leiða umræður og skoðanaskipti um störf, stefnu og ábyrgð flokksins í aðdraganda bankahrunsins. Nefndinni er ætlað að skila tillögum um umbætur á flokksstarfi og skipulagi næsta haust.

Flokkurinn skipaði tvo fulltrúa úr hverju kjördæmi í nefndina sem er ætlað að leggja mat á orð og verk Samfylkingarinnar í ljósi niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í tilkynningu segir að nefndin muni sérstaklega rýna í stefnu flokksins, starfshætti og ábyrgð auk aðkomu stofnana flokksins að lykilákvörðunum og lykilmálum i ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndarinnar.

Tímabilið sem starf nefndarinnar beinist að er frá maí 2007 til janúar 2009 en nefndin á að skila af sér eigi síðar en 15. október næstkomandi.

Nefndina leiða þau Ásgeir Beinteinsson skólastjóri, Hólmfríður Sveinsdóttir stjórnsýslufræðingur, Jón Ólafsson heimspekingur og Kolbrún Benediktsdóttir lögfræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×