Enski boltinn

Rooney elskar matreiðsluþætti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Matreiðsluþættir eru það heitasta hjá knattspyrnumönnum á Englandi í dag en margar af helstu stjörnum enska boltans sitja stjarfar fyrir framan skjáinn þegar slíkir þættir eru í sjónvarpinu.

Vísir hefur áður greint frá dálæti Fernando Torres á slíkum þáttum en það kemur kannski meira á óvart að Wayne Rooney hafi sérstakt dálæti á matreiðsluþáttum.

Uppáhaldsþáttur Rooney er nefnilega Laugardagseldhúsið á BBC. Þar sem hann spilar oftast á sama tíma og þátturinn er í gangi þá tekur hann þáttinn upp og horfir á síðar.

Rooney á það síðan til að elda sama mat er hann horfir á þáttinn. Hann stöðvar þá þáttinn reglulega svo hann geti fylgt nákvæmlega þeim leiðbeiningum sem eru gefnar.

Að sögn ku hann vera orðinn nokkuð sleipur í eldhúsinu.

Það hefur greinilega mikið breyst síðan leikmenn fengu sér bara sígó eftir leiki ásamt fisk og frönskum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×