Innlent

Náttfari yfirheyrður í allan dag

Sautján ára piltur hefur í allan dag verið yfirheyrður af lögreglunni á Selfossi vegna gruns um að hann hafi brotist inn í tugi bíla í bænum á síðustu mánuðum. Hann náðist í nótt eftir að hann gekk í gildru lögreglunnar og hefur hann játað brot sín.

Pilturinn hefur gengið undir nafninu náttfari. Síðustu þrjá mánuði hefur hann farið inn tugi ólæstra bíla í bænum að nóttu til og stolið þaðan lauslegum hlutum eins og GPS tækjum, myndavélum og lausafé.

Lögregla hefur lagt í mikla vinnu til að hafa uppi á þjófnum. Á meðal þess sem nýttist við leitina er þetta myndband. Það var tekið upp í síðustu viku á myndavél við heimahús í bænum sem tengd er Öryggismiðstöðinni. Þar sést pilturinn fara inn í bíl seint að nóttu.

Pilturinn lét læsta bíla vera. Hann rændi einungis úr þeim sem voru ólæstir og skemmdi ekkert. Lögreglu hefur reynst erfitt að hafa hendur í hári hans enda hefur hann verið fljótur að athafna sig. Eftir að grunur tók að beinast að piltinum fór lögregla að fylgjast með honum. Í nótt fór hann enn á ný á kreik en gekk í gildru lögreglu að þessu sinni í Tjarnarhverfi á Selfossi.

Hann var handtekinn á staðnum og hefur verið yfirheyrður í allan dag og játað á sig fjölmarga þjófnaði úr bílum. Við húsleit heima hjá honum fannst einnig þýfi. Hann hefur komið við sögu lögreglu. Lögreglan segir erfitt á þessari stundu henda reiður á hversu miklu pilturinn náði að stela á næturferðum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×