Innlent

Starfshópur skipaður um breytingar á skattakerfinu

Fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp til að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu.

Í tilkynningu segir að starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu til fjármálaráðherra eigi síðar en 15. júlí nk. með helstu stefnumarkandi tillögum og tillögum um þær lagabreytingar sem hægt verði að leggja fram til afgreiðslu á haustþingi 2010. Skulu þær tillögur vera í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og áætlanir um fjárlög fyrir árið 2011. Lokaskýrslu og heildartillögum skal skilað fyrir árslok 2010.

Vinna hópsins er í beinu framhaldi af þeim breytingum sem gerðar voru á skattalöggjöfinni í tengslum við fjárlög ársins 2010 á síðasta ári. Þær voru miðaðar við að bæta afkomu ríkissjóðs í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, en um leið að dreifa skattbyrði með sanngjörnum hætti og hlífa tekjulágum við skattahækkunum.

Helstu sjónarmið sem starfshópurinn skal leggja til grundvallar:

Að skattkerfið afli tekna í nægjanlegum mæli fyrir hið opinbera, stuðli að jöfnuði lífsskilyrða og hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta og auðlinda.

Að leggja mat á skattareglur og þyngd skattlagningar á Íslandi í samanburði við lönd með sambærilegt og betra velferðarstig.

Gæta þarf innbyrðis samræmis í álagningu skatta og í tekjuöflun hins opinbera almennt og skattkerfið þarf að stuðla að markmiðum stjórnvalda í félagsmálum, umhverfismálum og efnahagsmálum almennt.

Æskilegt að skattkerfið sé einfalt og gagnsætt og því ekki ætlað stærra hlutverk á einstökum sviðum en það getur með góðum móti valdið.

Starfshópinn skipa: Maríanna Jónasdóttir, fulltrúi fjármálaráðherra, sem jafnframt er formaður, Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, einnig tilnefndur af fjármálaráðherra, Hrannar B. Arnarsson, fulltrúi forsætisráðherra, Bolli Þór Bollason, fulltrúi félagsmálaráðherra, Arnar Þór Sveinsson, fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðherra og Hermann Sæmundsson, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Indriði H. Þorláksson starfar með hópnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×