Innlent

Hugsanlegt að samstarfsáætlun AGS og Íslands verði breytt

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Hugsanlegt er að breyta þurfi samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins til að önnur endurskoðun sjóðsins geti farið fram sem fyrst. Þetta segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Tafirnar sem orðið hafa þykja mjög vandræðalegar fyrir sjóðinn.

Upphaflega stóð til að önnur endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun Íslands færi fram í janúarmánuði síðastliðnum. Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur þó ekki viljað setja málið á dagskrá fyrr en niðurstaða liggur fyrir í Icesave málinu.

Afstaða Norðurlandanna hefur einnig valdið því að málið hefur tafist.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, fundaði ásamt Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á föstudag.

„Við fórum yfir stöðuna og hvaða möguleikar væru fyrir hendi. Íslendingar lögðu auðvitað ríka áherslu á að það var alveg óásættanlegt frá okkar sjónarhóli að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar AGS áætlunin beið mánuðum saman eftir því að Icesave málið þokaðist áfram. Það er ekki boðlegt að okkar mati og við komum því skýrt á framfæri og ég fékk ekki annað séð en að menn væru almennt sammála um að það væri alveg ófært að endurtaka þann leik."

Gylfi telur líklegt að endurskoðunin fari fram í næsta mánuði.

„Ég held að það séu þokkalegar líkur á því að við getum þokað þessu áfram. hugsanlega breytum við áætluninni eitthvað til þess að hægt verði að ná því fram en það er ekki neinn sem græðir á því að binda saman AGS áætlunina eða halda henni í herkví vegna Icesave málsins. Það kom ekki vel út í fyrra og er í raun mjög vandræðalegt fyrir alla sem að því stóðu, bæði sjóðinn sjálfan, Norðurlöndin Breta og Hollending og auðvitað mjög óþægilegt fyriri Íslendinga."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×