Hugsanlegt er að breyta þurfi samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins til að önnur endurskoðun sjóðsins geti farið fram sem fyrst. Þetta segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Tafirnar sem orðið hafa þykja mjög vandræðalegar fyrir sjóðinn.
Upphaflega stóð til að önnur endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun Íslands færi fram í janúarmánuði síðastliðnum. Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur þó ekki viljað setja málið á dagskrá fyrr en niðurstaða liggur fyrir í Icesave málinu.
Afstaða Norðurlandanna hefur einnig valdið því að málið hefur tafist.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, fundaði ásamt Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á föstudag.
„Við fórum yfir stöðuna og hvaða möguleikar væru fyrir hendi. Íslendingar lögðu auðvitað ríka áherslu á að það var alveg óásættanlegt frá okkar sjónarhóli að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar AGS áætlunin beið mánuðum saman eftir því að Icesave málið þokaðist áfram. Það er ekki boðlegt að okkar mati og við komum því skýrt á framfæri og ég fékk ekki annað séð en að menn væru almennt sammála um að það væri alveg ófært að endurtaka þann leik."
Gylfi telur líklegt að endurskoðunin fari fram í næsta mánuði.
„Ég held að það séu þokkalegar líkur á því að við getum þokað þessu áfram. hugsanlega breytum við áætluninni eitthvað til þess að hægt verði að ná því fram en það er ekki neinn sem græðir á því að binda saman AGS áætlunina eða halda henni í herkví vegna Icesave málsins. Það kom ekki vel út í fyrra og er í raun mjög vandræðalegt fyrir alla sem að því stóðu, bæði sjóðinn sjálfan, Norðurlöndin Breta og Hollending og auðvitað mjög óþægilegt fyriri Íslendinga."