Innlent

Fleiri konur þarf í fréttamennsku

Guðrún Helga Sigurðardóttir
Guðrún Helga Sigurðardóttir

Engar konur eru á meðal æðstu stjórnenda íslenskra fjölmiðla og í hópi næstráðenda eru konur aðeins um þriðjungur stjórnenda, segir í ályktun Félags fjölmiðlakvenna sem samþykkt var á fundi í fyrrakvöld. Í ályktuninni er rýr hlutur kvenna á fjölmiðlum gagnrýndur sem og uppsagnir á reyndum fjölmiðlakonum.

Hátt í hundrað konur mættu á fundinn og segir Guðrún Helga Sigurðardóttir, formaður félagsins, að þessi góða mæting sýni að fundurinn hafi verið tímabær og þarfur. Meðal þess sem rætt var á fundinum var hlutur kvenna á fréttadeildum fjölmiðla en á þeim eru konur alls staðar í minnihluta nema á fréttastofu Stöðvar tvö. Skorað er á stjórnvöld og yfirmenn fjölmiðla að rétta hlut kvenna á fjölmiðlum landsins.

Á fundinum var einnig rætt um aldursdreifingu á fjölmiðlum og var hvatt til þess að fjölmiðlakonum yrði leyft að eldast í starfinu. Guðrún Helga segir þá umræðu þarfa, nauðsynlegt sé að hafa reynslumiklar konur inni á fjölmiðlum.

- sbt








Fleiri fréttir

Sjá meira


×