Innlent

Varðskip og flugvél Gæslunnar sinni eftirliti í Miðjarðarhafi

Flugvél og varðskip Gæslunnar sinni eftirliti í Miðjarðarhafi

Allt útlit er fyrir að Landhelgisgæslan muni missa eina af þremur þyrlum sínum í maí. Forstjóri Gæslunnar segir að til standi að lána flugvél Gæslunnar og eitt varðskip til landamæraeftirlits í Miðjarðarhafi.

„Það rennur út leigusamningur um eina af þremur þyrlum Landhelgisgæslunnar í maí næstkomandi. Landhelgisgæslan telur það óásættanlega stöðu að hafa einungis tvær björgunarþyrlur til taks," segir Georg Lárusson forstjóri Gæslunnar.

Georg segir að miðað við rekstraráætlun Landhelgisgæslunnar sé ekki möguleiki á að reka allar þrjár þyrlurnar út árið. Samningur um þriðju þyrluna rann út núna í janúar en hann var framlengdur fram í maí. Georg segir það fyrst og fremst skerða björgunargetu úti á sjó. Það sé áhyggjuefni.

„Fjárhagsstaðan er svona í dag og engar horfur á þar verði nokkur breyting á. Þannig að lausnin er ekki í sjónmáli."

Georg segir þó að þreifingar hafi staðið yfir um hugsanlega leigu á tækjum gæslunnar til landamærastofnunnar Evrópusambandsins.

„Það lítur helst að landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi og við vesturströnd Afríku og þá er helst verið að horfa til nýju flugvélarinnar okkar og jafnvel annars að eldri skipum Landhelgisgæslunnar," segir Georg.

Hann segir að þær tekjur sem af því muni skapist megi jafnvel nota til þess að fjármagna þyrluna sem gæslan mun að öðrum kosti missa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×