Innlent

Til stóð til að friða braggann

Alfreð Þorsteinsson. Fyrrverandi forstjóri Sölunefndar varnarliðseigna segir eftirsjá að bragganum sem brann á nýársdag. Fréttablaðið/GVA
Alfreð Þorsteinsson. Fyrrverandi forstjóri Sölunefndar varnarliðseigna segir eftirsjá að bragganum sem brann á nýársdag. Fréttablaðið/GVA

Friða átti braggann sem brann á gamla vallarsvæðinu við Keflavík á nýársdag. Hann hýsti Sölunefnd varnarliðseigna á árunum 1952 til 2004.

Alfreð Þorsteinsson, sem gegndi starfi forstjóra hjá Sölunefnd varnarliðseigna, segir eftirsjá að bragganum, ekki síst í ljósi þess að til hafi staðið að varðveita hann. „Þarna voru skrifstofur þess aðila innan Varnarliðseigna sem var í beinu sambandi við varnarliðsmenn á vellinum,“ segir hann. „Það stóð til að varðveita þennan bragga, því hann var einn af fáum sem stóðu þarna eftir, til minja um þessa tegund húsa sem voru svo algeng hér á árum áður. Að því leyti er eftirsjá að honum.“

Í bragganum fóru fram ýmiss konar viðskipti við varnarliðið. Þar voru bílaviðskipti algengust, varnarliðsmenn komu þangað með bíla sem þeir vildu selja í lok vistar sinnar á Íslandi. Þar voru þeir skoðaðir og gerðir samningar um kaup. Sala varnarliðseigna gerði þeim þá tilboð og miðaði verðið við verð á bílum eins og það var í New York á hverjum tíma.

Enginn var nálægur þegar eldurinn kom upp og ekkert er enn vitað um upptök hans. - hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×