Innlent

Bílalán eru flestum heimilum til trafala

bílafloti Skuldsettustu heimilin eru í hvað mestum vanda vegna bílalána. Um 3800 heimili af þeim verst settu borga af tveimur bílalánum.éttablaðið/vilhelm
bílafloti Skuldsettustu heimilin eru í hvað mestum vanda vegna bílalána. Um 3800 heimili af þeim verst settu borga af tveimur bílalánum.éttablaðið/vilhelm
Ný úttekt Seðlabanka Íslands (SÍ) sýnir að 24 þúsund heimili í landinu glíma enn við verulega greiðsluerfiðleika þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda og úrræði fjármálafyrirtækja. Þau heimili sem eru í mestum vanda bera hátt í helming allra skulda vegna bílakaupa og 27 prósent íbúðarlána.

Ein af megin niðurstöðum úttektarinnar er að skuldsetning vegna bílakaupa gegni stóru hlutverki í að skapa þann skuldavanda sem heimilin í landinu berjast við.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá SÍ, segir mikið hafa áunnist síðan síðasta úttekt bankans á skuldavanda heimilanna var unnin, en bráðabirgðaniðurstöður voru birtar síðastliðið haust. Nýju gögnin sýni að um fimm þúsund heimili hafi nú getu til að standa undir skuldum sem gátu það ekki áður.

„Þessi úttekt gerir okkur ekki síst kleift að kortleggja þann hóp sem enn er í vanda. Það eru tekjulágir og barnafólk frekar en barnlausir. Frekar ungt fólk en eldra og greinilegt að vandinn er töluvert mikill á þeim svæðum þar sem hraðast byggðust upp í húsnæðisuppsveiflunni."

Í úttektinni kemur fram að ef ekki hefði verið gripið til frystingar lána strax eftir hrun væri hlutfall verst settu skuldaranna verið mun hærra. Aðrar aðgerðir sem gripið var til á seinni stigum hafa líka aðstoðað nokkurn hóp fjölskyldna. „Það breytir því þó ekki að um 24 þúsund heimili eru enn í verulegum vanda."

Þorvarður Tjörvi segir að næstu skref til að létta á skuldavanda heimilanna snúi helst að bílalánum.

„Við sýnum hvert athyglin ætti helst að beinast og það eru frekar bílalánin en húsnæðislánin. Þau virðast vera veigamikil skýring af hverju þessir hópar sem ég nefndi eru í þessum vanda."

Þorvarður segir að gagnagrunnur SÍ um skuldavanda heimilanna sé orðinn gríðarlega stór og stjórnvöld og fjármálastofnanir geti nýtt sér hann á marga vegu til að grípa til næstu aðgerða til að aðstoða skuldsett heimili.

Gagnagrunnurinn eigi sér reyndar enga hliðstæðu í heiminum.

svavar@frettabladid.is

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×