Enski boltinn

Emil snýr ekki aftur til Barnsley

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson fagnar marki í leik með Reggina fyrir ári síðan.
Emil Hallfreðsson fagnar marki í leik með Reggina fyrir ári síðan. Nordic Photos / Getty Images

Emil Hallfreðsson er búinn að ganga frá sínum málum hjá enska B-deildarliðinu Barnsley og mun ekki snúa aftur til liðsins á næsta tímabili.

Þetta staðfesti Emil í samtali við Vísi í dag. Hann var á láni hjá félaginu frá Reggina á Ítalíu þar sem hann á enn tvö ár eftir af samningi sínum.

Emil fótbrotnaði í leik með Barnsley í síðasta mánuði og er nú staddur hér á landi. Hann mun ekki geta æft á ný fyrr en í sumar.

„Ég ræddi málin við knattspyrnustjóra Barnsley og við vorum sammála um að þetta yrði niðurstaðan. Mér leið þó mjög vel hjá félaginu en það hefur átt í ákveðnum fjárhagsvandræðum og var ekki reiðubúið að borga það sem Reggina vildi fá fyrir mig," sagði Emil.

Eins og staðan er í dag er hann því á leið aftur til Ítalíu en Reggina er nú um miðja deild í Seríu B.

„Ég er þó opinn fyrir öllu og það er eitthvað verið að vinna í þessum málum. En ef eitthvað breytist þá gerist það ekki í sumar og ég er því aðeins að hugsa um að ná mér góðum af þessum meiðslum eins og er."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×