Innlent

Birta þarf upplýsingar um styrkþega

Landbúnaður Eini þáttur íslensks landbúnaðar sem er í samræmi við reglur ESB er lífrænn landbúnaður en 1% íslenskra bænda tengjast lífrænum landbúnaði, að því er segir í greiningarskýrslu ESB um Ísland.
Landbúnaður Eini þáttur íslensks landbúnaðar sem er í samræmi við reglur ESB er lífrænn landbúnaður en 1% íslenskra bænda tengjast lífrænum landbúnaði, að því er segir í greiningarskýrslu ESB um Ísland.

Í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er fundið að því að markvissa stefnu í málefnum dreifbýlisins skorti á Íslandi. Miklar aðfinnslur eru gerðar við stjórnsýslu landbúnaðarmála, ekki síst það að stjórnvöld feli Bændasamtökunum lykilhlutverk í stjórnsýslu málaflokksins og engar opinberar upplýsingar séu aðgengilegar um það hverjir njóta landbúnaðarstyrkja. Fjölmargar stuðningsaðgerðir stangist á við reglur ESB um samkeppni og ríkisstyrki.

Beingreiðslur íslenska ríkisins til bænda séu ekki í samræmi við ESB-reglur; ESB miðar nú við að 85 prósent ríkisstyrkja séu óháð framleiðslumagni bænda. Það hlutfall á að auka í 93 prósent fyrir árið 2013, samkvæmt endurskoðaðri landbúnaðarstefnu ESB. Mikið vantar á það hlutfall hér á landi enda eru styrkir að langmestu leyti framleiðslutengdir.

„Íslendingar munu þurfa að koma upp upplýsingakerfi fyrir móttakendur landbúnaðarstyrkja undir sameiginlegri stjórn og tryggja þarf að árlega verði birtar upplýsingar um nöfn þeirra sem njóta styrkjanna,“ segir í skýrslunni.

Enn fremur segir að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið sé of veikburða til þess að sinna stjórnsýslu landbúnaðarmála. Um 40 starfsmenn þess sinni stefnumótunarvinnu en framkvæmdinni hafi verið úthýst til hagsmunasamtaka bænda. Bændasamtökin hafi meðal annars það hlutverk að greiða ríkisstyrki til einstakra bænda. Öll tölfræði um íslenskan landbúnað sé vanþróuð. Í mörgum tilfellum byggist hún á áætluðum stærðum frekar en rauntölum.

Í heild sé íslensk landbúnaðarlöggjöf ekki í samræmi við löggjöf Evróusambandsins og þarfnist mikillar aðlögunar.

Varðandi dreifbýlisstefnu segir í skýrslunni að engin stofnun beri heildarábyrð á byggðaþróun og byggðastuðningi. Heildarstefnu sem svari til stefnu Evrópusambandsins í málaflokknum sé ekki fylgt. Hins vegar sé unnið að fjölmörgum smærri áætlunum og aðgerðum innan fjölmargra sjóða og stofnana. Nauðsynlegt verði að setja á fót stofnun sem annist greiðslur dreifbýlisstyrkja.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×