Íslenski boltinn

Andri: Ákall til stuðningsmanna Hauka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andri Marteinsson.
Andri Marteinsson.

„Við höfum ekki haft lukkuna á okkar bandi í sumar en það var yndislegt þegar hún loksins kom," sagði sigurreifur þjálfari Hauka, Andri Marteinsson, eftir leikinn gegn Fram í kvöld.

Haukar unnu 2-1 sigur en sigurmarkið skoraði Hilmar Trausti Arnarsson á fjórðu mínútu uppbótartíma leiksins.

„Okkur var farið að lengja eftir þeirri lukku sem lið hafa stundum með sér," sagði Andri. „En þetta var kaflaskiptur leikur og mér fannst Framarar betri framan af í báðum hálfleikjum. En í þeim báðum snerum við þessu á sveif með okkur og þá fannst mér við sterkari og líklegri."

Fram komst yfir í upphafi síðari hálfleiks en Haukar jöfnuðu metin úr vítaspyrnu þegar 20 mínútur voru til leiksloka.

„Eftir það fórum við „all-in" enda vissum við að Fylkir væri yfir í sínum leik. En þá opnuðum við okkar vörn og Framarar fengu því færi í lokin rétt eins og við. Sigurinn gat því dottið báðum megin en sem betur fer var lukkan á okkar bandi."

Aðeins 402 áhorfendur voru á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda í dag en þeir Haukamenn sem mættu studdu sína menn dyggilega. En Andri sagði það ekki hafa verið mistök að spila heimaleiki sína í Reykjavík.

„Ég held að ef menn eru virkilegir stuðningsmenn þá koma þeir í góða umgjörð hér og láta fara vel um sig í stúkunni, þó svo að þeir þurfi að sitja í bíl í tíu mínútur. Þetta er því ákall til stuðningsmanna Hauka að gefast ekki upp þó að á móti blási."

„Það er gaman að horfa á þessa stráka sem eru að spila með liðinu og þeir leggja sig mikið fram. En það virðist vera lenska hjá áhorfendum almennt að um leið og illa gengur snúa þeir baki við liðinu. Nú gengur ágætlega og vonandi koma því menn á næsta leik og láta sjá sig."

Haukar eru nú með sautján stig í næstneðsta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Grindavík og fjórum á eftir Fylki sem liðið spilar við á sunnudag. Sex stig eru eftir í pottinum.

„Það er meiri von í dag en eftir síðustu umferð og enn meiri en eftir þá þarsíðustu. Vonin er alltaf að styrkjast. Við vitum vel hvað við eigum eftir og við skulum segja að það styttist óðum í úrslitastundina."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×