Innlent

Sjálfstætt starfandi skólar eru ódýrari fyrir sveitarfélögin

Erla Hlynsdóttir skrifar
Margrét Pála vonast til að niðurstöður skýrslunnar hreki bábiljur um að sjálfstætt starfandi skólar séu dýrari í rekstri en opinberir skólar
Margrét Pála vonast til að niðurstöður skýrslunnar hreki bábiljur um að sjálfstætt starfandi skólar séu dýrari í rekstri en opinberir skólar
Sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar eru ódýrari í rekstri fyrir sveitarfélögin en þeir opinberu.

Að meðaltali fá sjálfstætt starfandi leikskólar aðeins 86% af þeim kostnaði sem sveitarfélögin leggja til eigin leikskóla. Í flestum tilvikum innheimta leikskólarnir ekki hærri skólagjöld en sveitarfélagaskólarnir og eru þannig reknir fyrir umtalsvert lægri fjárhæðir.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands vann að beiðni Samtaka verslunar og þjónustu.

Margrét Pála Ólafsdóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, segir niðurstöðuna afar jákvæða. „Þarna kemur fram að okkur tekst að sinna okkar starfi fyrir minna fjármagn en opinberu skólarnir. Á tímum hagræðingar og aðhalds eru það góðar fréttir," segir hún.

Þrátt fyrir að landslög geri ráð fyrir því að sjálfstætt reknir grunnskólar fái minnst 75% af landsmeðaltali með hverjum nemanda fá þeir aðeins 73% að meðaltali. Í Reykjavík fer hlutfallið niður í 69% en hlutfall Garðabæjar er hæst eða 80% af meðalkostnaði.

Margrét leggur áherslu á að þrátt fyrir að sjálfstætt starfandi skólum vegni vel með minna fé frá sveitarfélögunum en opinberum skólum, verði að gæta þess að fjármagn til þeirra verði ekki skert enn frekar þannig að gæðum sé ógnað. „Það er mikilvægt að munurinn á fjárframlögum til skólanna aukist ekki. Í Hafnarfirði kom upp umræða um að loka grunnskóla Hjallastefnunnar til að spara. Þessi skýrsla sýnir þannig að ekki er um villst að það er engin hagkvæmni að loka ódýrustu skólunum" segir Margrét.

Hún er jafnframt stofnandi Hjallastefnunnar sem er stærsti rekstraraðilinn innan Samtaka sjálfstæðra skóla.

Margrét vonast til að niðurstöður skýrslunnar verði til þess að hrekja bábiljur um að sjálfstætt starfandi skólar séu dýrir í rekstri og aðeins fyrir forréttindahópa.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×