Erlent

Giftingar í sögulegu lágmarki

Þetta par kaus að gifta sig og tilheyrir hópi sem fer minnkandi. nordicphotos/AFP
Þetta par kaus að gifta sig og tilheyrir hópi sem fer minnkandi. nordicphotos/AFP
Sífellt færri Bretar virðast kjósa hjónabandið, en nú er svo komið að hjónabönd þar í landi hafa ekki verið hlutfallslega færri frá því skráningar hófust árið 1862. Í breska dagblaðinu Telegraph kemur fram að samkvæmt tölum frá árinu 2008 séu bæði konur og karlar þar í landi sífellt eldri þegar þau gifta sig í fyrsta sinn. Konurnar 29,9 ára og karlarnir 32,1 árs.

Ástæðurnar eru fyrst og fremst taldar vera hækkandi kostnaður vegna brúðkaupa og skortur á stuðningi yfirvalda við hjónabandið sem stofnun. Samfélagslegar breytingar eins og aukinn hlutur kvenna á vinnumarkaði og það að konur kjósa að gifta sig seinna á ævinni eru einnig nefndar sem lykil­ástæður þessarar fækkunar hjónabanda. Færri en tvær af hverjum 100 konum yfir 16 ára aldri giftu sig í Bretlandi árið 2008 og er það í fyrsta sinn í sögunni sem hlutfallið er svo lágt. Svipuð þróun hefur átt sér stað meðal karla.

Mörgum þykja þessar tölur sorglegar, en í Telegraph er haft eftir Dave Percival, sem berst fyrir hjónabandinu, að fólk líti í auknum mæli sömu augum á hjónaband og sambúð, en niðurstaðan sé sláandi ólík. Tveir þriðju hjónabanda árið 2008 muni endast alla ævi. Minna en tíu prósent þeirra para sem séu í sambúð nái tíu ára sambúðarafmæli.- sgá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×