Enski boltinn

Martinez: Munum gera okkar besta gegn Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Martinez, þjálfari Wigan.
Roberto Martinez, þjálfari Wigan. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Wigan, segir að hans menn munu gefa allt sitt í leikinn gegn Chelsea í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina.

Wigan varð fyrsta liðið til að vinna Chelsea á yfirstandandi tímabili er það fagnaði 3-1 sigri á heimavelli sínum fyrr í vetur.

Liðið er sem stendur í fimmtánda sæti deildarinnar en getur með sigri komist upp í það fjórtánda og þar með fengið hærra verðlaunafé. Munurinn yrði 750 þúsund pund.

„Ég get lofað því að við munum gera okkar besta," sagði Martinez en Chelsea er á toppi deildarinnar og getur með sigri tryggt sér enska meistaratitilinn.

Manchester United er þó aðeins stigi á eftir Chelsea og þarf því að stóla á hagstæð úrslit úr leik Chelsea til að eiga möguleika á titlinum.

„Við vitum að það eru sjálfsagt ekki margir sem eiga von á því að við náum góðum úrslitum gegn Chelsea á útivelli," sagði Martinez. „En við höfum sýnt það á tímabilinu að við getum strítt hvaða liði sem er á góðum degi."

„Við munum njóta þess að fá að taka þátt í þessum leik því þetta verður sérstök reynsla fyrir ungu leikmenn liðsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×