Innlent

Samgöngumiðstöð aðlöguð að breyttum efnahagsaðstæðum

Kristján Möller og Hanna Birna Kristjánsdóttir undirrituðu í morgun minnisblað um fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri.
Kristján Möller og Hanna Birna Kristjánsdóttir undirrituðu í morgun minnisblað um fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri.
Gerðar hafa verið breytingar á samgöngumiðstöðinni og hún aðlöguð að breyttum efnahagsaðstæðum og færri farþegum en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á þessu ári.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Kristján Möller, samgönguráðherra, undirrituðu í morgun vegna undirbúnings framkvæmda við fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni.

Í minnisblaðinu kemur fram að hlutverk samgöngumiðstöðvar er mikilvægt. Hvort sem innanlandsflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni eða ekki enda er samgöngumiðstöð ætlað að hýsa alla samgöngustarfsemi í Vatnsmýrinni til framtíðar.



Framkvæmdir hefjast á þessu ári



Flugstoðir ohf. munu reisa fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar. Staðsetning hennar verður í samræmi við svokallaðan austurvalkost, en unnið hefur verið að skipulagsmálum og fleiri þáttum honum tengdum í nokkurn tíma. Stefnt er að því að niðurstaða varðandi alla þætti liggi fyrir svo fljótt sem verða má þannig að framkvæmdir við fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar geti hafist á þessu ári.

Í samræmi við minnisblað borgarstjóra og samgönguráðherra frá því 11. febrúar 2005 munu samgönguyfirvöld loka NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli en við það skapast svæði til annarra nota, meðal annars fyrir samgöngumiðstöð.

Samráðsnefnd um málefni Reykjavíkurflugvallar

Borgarstjóri og samgönguráðherra skrifuðu einnig undir samkomulag um samráðsnefnd um málefni Reykjavíkurflugvallar. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að vera samráðsvettvangur ríkis og borgar um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nefndinni er sérstaklega ætlað að fylgja eftir þeim aðgerðum sem lagðar voru til af samráðsnefnd um skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar undir stjórn Helga Hallgrímssonar.

Í samráðsnefndinni verða sjö fulltrúar. Þrír verða tilnefndir af samgönguráðherra og þrír tilnefndir af borgarstjóranum í Reykjavík. Starfstími samráðsnefndarinnar er til 1. september 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×