Erlent

Foringjar Hamas vígreifir

Óli Tynes skrifar
ísraelskur skriðdreki utan við Gaza borg.
ísraelskur skriðdreki utan við Gaza borg. MYND/AP

Um hálf milljón manna býr í Gaza borg. Óvíst er hvort Ísraelar leggja í að fara með skriðdreka langt inn í borgina. Þeir eiga erfitt með að athafna sig nema helst á aðalgötum borgarinnar.

Talið er að Hamas hafi um tuttugu þúsund manns undir vopnum og þeir myndu sitja fyrir skriðdrekunum á hverju götuhorni og auk þess ofan frá í háhýsum sem eru mörg.

Talað er um innrás í borgina sem þriðja stig átakanna og Ísraelar vita vel að þeir mega búast við umtalsverðu mannfalli sem og mannfalli meðal óbreyttra borgara.

Ekkert gengur að stöðva bardagana og heimildir herma að Hamas muni í dag hafna tillögum sem Egyptar hafa lagt fram um vopnahlé.

Ismail Haniyeh leiðtogi samtakanna á Gaza ströndinni segir að þeir muni ekki semja um neitt vopnahlé fyrr en Ísraelar hafi kvatt herlið sitt þaðan og aflétt umsátrinu sem hófst þegar Hamas tók þar völdin.

Haniyeh er sjálfur í felum eins og aðrir forystumenn Hamas en skilaboð hans til þeirra palestínumanna sem eru ofan jarðar eru; Sigurinn er í sjónmáli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×