Innlent

Hæstiréttur staðfestir sekt í DC++ máli

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Snæbjörn og félagar fagna niðurstöðu Hæstaréttar.
Snæbjörn og félagar fagna niðurstöðu Hæstaréttar. Mynd/ Anton
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir níu mönnum í hinu svokallaða DC++ máli. Mennirnir voru upphaflega sakfelldir í héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að birta og gera eintök af forritum, kvikmyndum og tónlist á netinu þannig að aðrir gætu nálgast það efni án leyfis rétthafa. Ennfremur var einn ákærða dæmdur fyrir að setja upp og hýsa miðlægan nettengipunkt og hafa með því liðsinnt í verki og hvatt til þess að aðrir ákærðu birtu á netinu í heimildarleysi ólögmæt eintök varin höfundarétti.

Í Hæstarétti var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að allt það efni sem ákært hefði verið fyrir nyti verndar höfundalaga. Einnig var tekið undir með héraðsdómi að ákærðu hefðu stundað ólögmæta eintakagerð á höfundaréttarvörðu efni og að sá háttur sem hafður væri á dreifingu þess, að deila því með öðrum á fjölmennu en lokuðu jafningjaneti, jafngilti opinberri birtingu og félli ekki undir undanþáguákvæði 11. gr. höfundalaga, sem leyfi eintakagerð til einkanota.

Í yfirlýsingu sem SMÁÍS sendi frá sér síðdegis kemur fram að rétthafar tónlistar og myndefnis lýsi yfir ánægju sinni með niðurstöðu Hæstaréttar í dag. Þar segir jafnframt að þessi niðurstaða sé í samræmi við aðra dóma sem fallið hafa undanfarið á hinum Norðurlöndunum, nú síðast í Svíþjóð og Finnlandi, þar sem brot gegn rétthöfum hafa verið staðfest af dómstólum.

Í yfirlýsingu segir einnig að rétthafar tónlistar og myndefnis vonist til þess að dómurinn verði til þess að fólk átti sig almennt á því að ólögmætt sé að skiptast á kvikmyndum, tónlist og forritum á netinu án heimildar rétthafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×