Enski boltinn

Kinnear ætlar að bíða með að framlengja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Kinnear, stjóri Newcastle.
Joe Kinnear, stjóri Newcastle. Nordic Photos / Getty Images
Joe Kinnear segir að sér standi til boða að framlengja samning sinn við Newcastle um tvö ár en ætlar að bíða með það til loka tímabilsins.

Kinnear var ráðinn til félagsins í september síðastliðnum eftir að Kevin Keegan hætti. Fyrst um sinn var Kinnear ráðinn í einn mánuð í senn en ráðinn til loka tímabilsins í desember.

„Mín mál eru ekkert breytt. Samningurinn er í skúffu í skrifborðinu mínu og ég mun skoða þetta að tímabilinu loknu," sagði Kinnear.

Þó svo að Kinnear hafi ekki verið lengi hjá Newcastle hefur hann lent í ýmsu. Hann blótaði til að mynda 52 sinnum þegar hann las fjölmiðlamönnum pistilinn á blaðamannafundi og var svo kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir ummæli í garð Martin Atkinson dómara.

Hann var svo kærður öðru sinni eftir að honum lenti saman við Phil Brown, stjóra Hull.

Nýjasta dæmið er svo þegar hann kallaði Charles N'Zogbia „Insomnia" sem er enska heitið á svefnleysi. N'Zogbia neitaði í kjölfarið að spila með Newcastle aftur og fór til Wigan áður en félagaskiptaglugginn lokaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×