Lífið

Söngkeppni framhaldsskólanna of dýr fyrir RÚV

Sigurvegari síðasta árs.
Sigurður Þór Óskarsson úr Versló söng sig inn í hug og hjörtu landsmanna í fyrra með lagi Damien Rice, The Professor. Sigurvegarinn í ár verður ekki krýndur í beinni útsendingu eins og hefð hefur verið fyrir því hvorki RÚV né Stöð 2 treystu sér til þess að taka keppnina upp á sína arma. Þórhallur Gunnarsson dagskrárstjóri Sjónvarps<B> </B>segir söngkeppnina einfaldlega hafa lent undir niðurskurðarhnífnum. Fjölmargir þekktir tónlistarmenn hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni, til að mynda Emilíana Torrini, Margrét Eir, Guðrún Árný og Sverrir Bergmann.
Sigurvegari síðasta árs. Sigurður Þór Óskarsson úr Versló söng sig inn í hug og hjörtu landsmanna í fyrra með lagi Damien Rice, The Professor. Sigurvegarinn í ár verður ekki krýndur í beinni útsendingu eins og hefð hefur verið fyrir því hvorki RÚV né Stöð 2 treystu sér til þess að taka keppnina upp á sína arma. Þórhallur Gunnarsson dagskrárstjóri Sjónvarps<B> </B>segir söngkeppnina einfaldlega hafa lent undir niðurskurðarhnífnum. Fjölmargir þekktir tónlistarmenn hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni, til að mynda Emilíana Torrini, Margrét Eir, Guðrún Árný og Sverrir Bergmann.

RÚV mun ekki sýna beint frá söngkeppni framhaldsskólanna í ár. Að sögn Þórhalls Gunnarssonar, dagskrárstjóra RÚV, er þetta einfaldlega hluti af þeim niðurskurðaraðgerðum sem Sjónvarpið þurfti að grípa til í ár. „Við tökum auðvitað upp þráðinn á næsta ári en þetta er því miður eitthvað sem við ráðum ekki við eins og málin standa í dag.“

Þórhallur bætir því við að þeir séu að skoða hvort hægt sé að taka upp efni í kringum keppnina og senda út síðar en engin ákvörðun hafi verið tekin um það.

Ómar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra framhaldsskólanema, segir þetta slæm tíðindi. „Að sjálfsögðu, söngkeppnin er ekkert síður vinsæl en Gettu betur og þetta hefur verið vinsælt sjónvarpsefni undanfarin ár. Okkur finnst þetta alveg hrikalega slæmt, ekki bara fyrir framhaldsskólanemendurna heldur líka fyrir þá fjölmörgu sem hafa haft gaman af þessari keppni,“ segir Ómar. „Mér finnst að RÚV ætti að sinna innlendum atburðum á borð við þennan því þetta er fínt krydd á móti þessum heimildarmyndum um rottur frá Finnlandi.“

Viðburðafyrirtækið AM Events hefur séð um skipulagningu söngkeppninnar fyrir framhaldsskólana. Andri Geirsson hjá AM segir það sorglegt að RÚV verði ekki á staðnum.

„Samkvæmt síðustu mælingu Capacent Gallup þá horfðu í kringum hundrað og fjörutíu þúsund á keppnina í fyrra,“ segir Andri og viðurkennir að keppnin sé hálf landlaus því Stöð 2 hafi heldur ekki treyst sér til þess að sýna frá keppninni beint. Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, staðfesti það. „Fyrirvarinn var bara einfaldlega of stuttur og verðmiðinn of hár,“ segir Pálmi. Ekki mun hafa verið rætt við Skjá einn.

Og það virðist nokkur ólga í kringum söngkeppnina í ár því nýverið var stofnuð Facebook-síða þar sem skorað var á skipuleggjendur að stytta ekki lögin niður í 90 sekúndur. Einhverjir hafa jafnvel hótað því að draga sig úr keppni ef þetta verður að veruleika.

Andri segir að upphaflega hafi þetta verið gert til að koma til móts við Stöð 2 þegar skipuleggjendur keppninnar voru í samningaviðræðum við þá. „En þegar ljóst er að keppnin verður ekki sýnd þar þá sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að lengja lögin aftur í tvær og hálfa mínútu eins og verið hefur undanfarin ár.“



freyrgigja@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.