Íslenski boltinn

Ólafur: Erum enn að bæta okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, hvetur sína menn áfram í kvöld.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, hvetur sína menn áfram í kvöld. Mynd/Valli
Ólafur Þórðarson segir góða byrjun sinna manna í Fylki í Pepsi-deildinni mikilli vinnu að þakka og að leikmenn séu að leggja sig alla fram.

Fylkir vann 2-0 sigur á Keflavík í kvöld en í fyrstu umferðinni lagði liðið Val, 1-0. Báðir leikirnir á heimavelli en liðið hefur ekki enn fengið á sig mark.

„Úrslitin eru góð og spilamennskan líka í síðari hálfleik," sagði Ólafur eftir leikinn. „Það var meira moð í leiknum í fyrri hálfleik og fórum við yfir stöðuna í leikhlénu. Þá fórum við einfaldlega að spila betur og þá gekk þetta upp."

Fylkir lék undan vindi í fyrir hálfleik en Ólafur sagði að sínir menn hefðu ekki óttast það að mæta Keflvíkingum í síðari hálfleik, þá með vindinn í fangið.

„Alls ekki. Reynslan sýnir manni að það er betra að spila gegn vindinum en með honum. Oft reynist þá auðveldara fyrir menn að taka á móti boltanum. Við hefðum vissulega mátt nýta meðvindinn í fyrri hálfleik betur og þá sérstaklega í föstum leikatriðum en við vorum ekkert hræddir fyrir síðari hálfleikinn."

Hann segir að leikmenn séu að uppskera eins og þeir hafi sáð í vetur. „Okkar staða er vissulega góð. Strákarnir eru bara að leggja sig 100 prósent fram og hafa æft vel í vetur. Þeir eru að uppskera samkvæmt því. Auðvitað eru gerð mistök inn á vellinum en þannig er bara knattspyrnan. Enginn er fullkominn og við erum enn að vinna í því að bæta okkar leik. Ég hef ekki enn séð þann leikmann sem ekki gerir mistök og þegar ég finn hann verð ég sáttur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×