Innlent

Nokkrir sjálfstæðismenn eftir að gefa upp hagsmunatengsl

Reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum utan þings er nú framfylgt í fyrsta sinn á þingi.
Reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum utan þings er nú framfylgt í fyrsta sinn á þingi. Mynd/Pjetur

Flestallir alþingismenn höfðu lokið við skráningu á fjárhagslegum hagsmunum sínum í gærkvöldi.

Þingmenn höfðu haft frest frá 15. maí til að skila þessum upplýsingum, en hann rann út á miðnætti.

Á tíunda tímanum höfðu allir þingmenn, nema fimm sjálfstæðismenn, skilað inn eyðublaði sínu.

Tveir aðrir þingmenn, úr VG og Borgarahreyfingu, höfðu látið vita sérstaklega að þeir gætu ekki skilað upplýsingum um sig strax. Annar þeirra var í leyfi, en hinn glímdi við dynti einkatölvu sinnar.

„Í sjálfu sér er ekki hægt að bregðast við með valdbeitingu, ef þingmenn skila þessu ekki inn," segir Ásmundur Helgason, yfirlögfræðingur Alþingis. „Það er litið á það sem pólitíska og siðferðilega skyldu þingmanna að gefa þessar upplýsingar upp, en Alþingi hefur engin úrræði eða tæki til að bregðast við þeim sem þráast við að skila," segir hann.

Það skal ítrekað að enn voru tveir tímar til stefnu í gærkvöldi. Einn fimmmenninganna, Birgir Ármannsson, sagðist til að mynda í viðtali við Fréttablaðið um níuleytið búast við því að skila sínum upplýsingum inn fyrir miðnætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×