Innlent

Fíkniefnabrotum fækkar umtalsvert á milli ára

MYND/Ríkislögreglustjóri

Skráðum fíkniefnabrotum á landinu í júlí hefur fækkað um 45 prósent á milli ára en 89 fíkniefnabrot voru skráð hjá lögreglunni í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Ríkislögreglustjóra sem tekur saman afbrotatölfræði og birtir mánaðarlega. Á síðasta ári var 161 fíkniefnabrot skráð hjá lögregluumdæmum landsins og hefur þeim raunar fækkað stöðugt í júlímánuði frá árinu 2005 þegar skráð brot voru 239.

Umferðarlagabrot voru samkvæmt tölunum 5.680 í júlí og standa þau nánast í stað frá fyrra ári. Þó fjölgar hraðaksturbrotum nokkuð á milli ára en í fyrra voru þau 4200 og í ár eru þau 4.670. Þá fækkar ölvunarakstursbrotum um 13 prósent og líkamsmeiðingum fækkar um 14 prósent.

Þjófnaðarbrotum fjölgar á milli ára í júlí eins og síðastliðna mánuði og nemur hún 36 prósentum. Tilkynnt var um 302 innbrot í júlí í ár en í fyrra voru 267 innbrot framin í sama mánuði.

Ef litið er til þjófnaðarbrota síðustu 13 mánuði sést að 15 þjófnaðarbrot eru framin á degi hverjum á þessu tímabili að meðaltali. Miðað við sama tímabil hafa 10 innbrot verið framin á degi hverjum að meðaltali. Fjöldi líkamsmeiðinga hefur haldist jafn út tímabilið og eru um þrjú slík brot framin á degi hverjum.



Nánar má kynna sér skýrsluna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×