Innlent

„Við verðum leiguliðar í eigin landi“

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Þór Saari
Þór Saari
„Við verðum leiguliðar í eigin landi ef fram heldur sem horfir," segir Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, aðspurður um niðurskurð til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann bætir við að niðurskurður á fjárlögum ríkisins til lögregluembættanna fari mest megnis í að borga skuldir Björgólfsfeðga vegna Icesave.

Greint hefur verið frá því í dag á Vísi og í fréttum Stöðvar 2, að lögreglunni skorti mikið fjármagn til að eðlilegur rekstrargrundvöllur skapist hjá lögregluembættum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég hef einfaldlega heyrt frá fólki sem hefur lent í því að eigur þeirra hafa verið skemmdar eða brotist hefur verið inn til þeirra. Slík mál virðast njóta lítils forgangs ef einhvers hjá lögreglunni," segir Þór.

Þór segir að lögreglan sé greinilega undirmönnuð.

„Þetta er birtingarmynd þess ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Niðurskurður á fjárlögum ríkisins fara að mestu leyti í það að borga skuldir sem þjóðinni ber ekki að greiða. Icesave málið er það versta og fáranlegasta sem nokkur ríkisstjórn hefur tekið að sér. Við verðum leiguliðar í eigin landi þar sem allar eignir þjóðarinnar koma til með að ganga upp í skuldir," sagði Þór að lokum og var ómyrkur í máli.








Tengdar fréttir

Neyðarkall frá lögreglumanni

Lögreglumönnum er stefnt í hættu vegna fámennis í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í sumum tilfellum eru þeir einir á bílum, jafnvel á næturvöktum um helgar. Svo hljóðar bréf sem fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 fékk sent í gærkvöld frá manni sem segist vera lögreglumaður. Maðurinn segist ekki koma fram undir nafni af ótta við yfirstjórn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×