Erlent

Google Earth afhjúpar leyndarmál Bandaríkjamanna í Pakistan

Netforritið Google Earth, þar sem hægt er að fylgjast með lífinu á jörðinni í gegnum gervihnetti, hefur afhjúpað eitt af leyndarmálum bandaríska hersins í Pakistan.

Samkvæmt myndum frá Google Earth rak bandaríki herinn leynilega flugstöð í Shamsi í suðvesturhluta Pakistan. Frá þessari flugstöð voru fjarstýrða og ómönnuð flugvélmenni of gerðinni Predator send til að njósna um skæruliða al-kaída og Talibana meðfram landamærum Pakistans og Afganistans.

Breska blaðið The Times birtir loftmynd frá Google Earth þar sem þrjár Predator vélar sjást greinilega á hlaðinu fyrir utan flugstöðina. Stjórnvöld í Pakistan segja að flugstöðinni hafi verið lokað árið 2006 en hún var notuð fimm árum fyrr er Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan.

Hinsvegar sýna myndirnar að flugstöðin var greinilega í rekstri árið 2006. Predator er ekki bara notuð til njósna því hún getur borið tvö laserstýrð Hellfire flugskeyti.

Auðugir Arabar notuðu Shamsi flugstöðina til að þjálfa veiðifálka sína áður en Bandaríkjamenn tóku reksturinn í sínar hendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×